Gæðastimpill
ferðaþjónustunnar
Vörumerkið Varða felur í sér viðurkenningu og staðfestingu á framúrskarandi áfangastaðastjórnun. Vörður þurfa að uppfylla viðmið verkefnisins og sýna fram á langtímaskuldbindingu til þess að framfylgja þeim við stjórnun og skipulagningu.

Íslensk hönnun

Hönnun merkisins byggir á sömu grunnstoðum og vörðurnar sjálfar. Í grunninn sýnir merkið form vörðu og táknar jafnvægi náttúru og mannvirkja, með vísun í íslenska arfleifð og mynstur. Áhersla var lögð á að merkið end­ur­spegl­aði sögu og sérstöðu þeirra ólíku merkisstaða á Íslandi, sem geta með tíð og tíma orðið Vörður. Hver varða er sjálfstæð, en jafnframt hluti af heild, sem varðar leið að áfangastað. Úr varð einstakt merki sem er í senn tímalaust, táknrænt og íslenskt.

Heiðursmerki

Staðir sem eru Vörður mega nýta sér sérstakt heiðursmerki, sem er sýnilegt fyrir gesti. Þetta merki er ekki ætlað til notkunar utan svæðisins.

Vörður geta fengið heiðursmerkið sem skjöld, sem greyptur er í stétt eða göngustíg.

Vörður verða markaðssettar til íslenskra og erlendra ferðamanna og er ætlunin að úr verði þekkt merki sem ferðamenn leita uppi við skipulagningu á ferðalögum sínum. Vörðum er ætlað að leiða ferðamenn áfram á leið sinni um landið.

Varða er skrásett vörumerki. Eingöngu þeir staðir sem eru Vörður mega nota vörumerkið, samkvæmt samningi við menningar- og viðskiptaráðuneyti.

Nánari upplýsingar veitir varda@varda.is.

Learn More
Vegvísir að vönduðum
áfangastöðum á Íslandi
Vörumerkið Varða er viðurkenning á því að stjórnun áfangastaðarins sé til fyrirmyndar og að við umsjón hans og áframhaldandi þróun sé sífellt unnið að sjálfbærni á öllum sviðum.