Stefnuskjal

Vinnugögn
Haustið 2021 fóru fram vinnustofur á Jökulsárlóni, Gullfossi, Geysi og Þingvöllum. Þær voru leiddar af frönskum ráðgjöfum sem hafa unnið að sams konar verkefni í Frakklandi sem kallast „Grand Sites de France“. Meðal þess sem ráðgjafarnir lögðu til er að hlúa að sérstöðu og staðaranda hvers áfangastaðar, hafa innviði lágstemmda og huga að miðlun menningararfs.

Auk ráðgjafanna og verkefnastjórnar Vörðu, sem sam­an­stend­ur af fulltrúum menningar- og við­skipta­ráðu­neyt­is og umhverfis, orku og lofts­lags­ráðu­neyt­is, var lyk­il­hag­að­il­um boðið að taka þátt í vinnustofunum þ.e. um­sjón­ar­að­il­um staðanna, fulltrúum sveitarfélaga, á­fanga­staða­stofu Suðurlands og rekstraraðilum þar sem við átti.

Markmið vinnustofanna var að máta áfangastaðina við hugmyndafræði og viðmið Vörðu og að fá utanaðkomandi álit ráðgjafanna á ástand og þróun staðanna með hliðsjón af reynslunni í Frakklandi. Vinnustofurnar voru tvískiptar. Annars vegar var farið í vettvangsheimsóknir þar sem rýnt var í staðhætti, landslag, skipulag og inn­viða­upp­bygg­ingu og áhrif þessara þátta á upplifunina af stöðunum. Hins vegar voru haldnir vinnufundir þar sem leitast var við að móta sameiginlega sýn fyrir staðina til framtíðar.

Niðurstöður og tillögur ráðgjafanna eru að­gengi­leg­ar hér fyrir neðan. Þær munu nýtast í áætlanagerð sem mun hjálpa stöðunum að færast nær hug­mynda­fræð­inni sem unnið er samkvæmt, þannig að þeir geti orðið Vörður innan ákveðins tíma.

Niðurstöður vinnustofa

Tillögur og niðurstöður um hugmyndafræði Vörðu Samantekt fyrir alla áfangastaðina Geysir -  samantekt
Gullfoss -  samantekt
Jökulsárlón -  samantekt
Þingvellir -  samantekt

Viðhorfskönnun meðal ferðamanna á áfangastöðum Vörðu
Menningar- og viðskiptaráðuneytið fól Rann­sókna­mið­stöð ferðamála að hafa umsjón með prufukeyrslu á viðhorfskönnun meðal ferðamanna við Geysi, Gullfoss, Jökulsárlón og í Þjóðgarðinum á Þingvöllum sumarið 2022. Rannsóknamiðstöðin útfærði einnig gagnaöflun fyrir könnunina.

Álagsstýring á ferðamannastöðum

Verkefnið er unnið að beiðni atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins sem samantekt á aðgerðum til álagsstýringar í ferðaþjónustu á Íslandi. Mikill árangur hefur náðst í að bæta aðstöðu á ferðamannastöðum á síðustu árum, bæði að frumkvæði stjórnvalda og einkaaðila. Til að bregðast við þeim áskorunum sem hröð fjölgun ferðamanna hefur í för með sér þarf hins vegar að skoða betur leiðir til virkrar álagsstýringar á ferðamannastöðum til þess að vernda náttúruna, bæta flæði, öryggi og upplifun. Í samantektinni má finna yfirlit yfir leiðir til að ná fram álagsstýringu, bæði þekktar leiðir og nýjar hugmyndir, sem geta nýst bæði stjórnvöldum og ferðaþjónustuaðilum.

Skýrslunni fylgir einnig viðauki með aðgerðum fyrir Gullna hringinn.

Áhugaverðir staðir á Gullna hringnum: Skráning myndastoppa

Menningar- og viðskiptaráðuneytið fól Vegagerðinni að gera greiningu á áningarstöðum ferðamanna á Gullna hringnum. Markmiðið var að fá heildstæða yfirsýn yfir staði á Gullna hringnum þar sem ferðamenn stoppa gjarnan til myndatöku og engin aðstaða er til staðar. Einnig var Vegagerðinni ætlað að leggja til fyrstu úrbætur að bættu flæði umferðar ferðamanna um svæðið og jöfnun á álagstoppum sem og að búa til grunn fyrir frekari úrbætur til framtíðar.