Þingvellir
Þingvellir hlutu viðurkenningu sem fyrsta Varðan á Íslandi árið 2022 fyrir framúrskarandi áfangastaðastjórnun. Viðurkenninguna veitir menningar- og viðskiptaráðherra.
Stórbrotið umhverfi
Í þjóðgarðinum á Þingvöllum mynda jarðsagan og vistkerfi Þingvallavatns einstaka heild. Fáir staðir hafa aðra eins tengingu við sögu Íslands og íslensku þjóðarinnar enda hafa Þingvellir verið sögusvið helstu viðburða Íslandssögunnar. Þingvellir og nánasta umhverfi eru friðlýstur helgistaður allra Íslendinga og er landið friðað í því skyni að varðveita ásýnd þess og viðhalda upprunalegu náttúrufari.
Náttúruundur á heimsvísu
og skýr framtíðarsýn
Þingvallaþjóðgarður var samþykktur á heimsminjaskrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) árið 2004. Þar með eru Þingvellir í hópi menningar- og náttúruminjastaða sem taldir eru hafa einstakt gildi fyrir alla heimsbyggðina. Í skráningu á heimsminjaskrá felst mikil ábyrgð gagnvart því að viðhalda einstöku gildi staðarins fyrir alla heimsbyggðina. Það hefur tekist sérlega vel á Þingvöllum en staðurinn er í sífelldri þróun þar sem verndun náttúru og menningarminja er ávallt í forgrunni.
Hlýlegar móttökur og aðstaða til fyrirmyndar
Þjóðgarðurinn á Þingvöllum er meðal fjölsóttustu á­fanga­staða landsins en þar hafa gestir aðgang að fjölbreyttri þjónustu. Boðið er upp á leiðsögn og fræðslu um sögu og náttúru staðarins þar sem einnig er sagt frá fram­tíð­ar­þró­un þjóðgarðsins í átt að sjálfbærari starfsemi. Fjöldi fallegra gönguleiða stendur gestum til boða og á göngunni má fræðast um sögu og jarðfræði staðarins á skiltum. Á svæðinu er rekin kaffi- og veitingasala og gott aðgengi er að bílastæðum og salernum. Þá má einnig finna tjaldsvæði á tveimur svæðum innan þjóðgarðsins.
Ferðalagið hefst
á Þingvöllum
Vörður leiða ferðamenn áfram á leið sinni um landið og beina þeim á staði sem eru sannarlega til fyrirmyndar í móttöku gesta. Sem fyrsta Varðan eru Þingvellir brautryðjandi og um leið fyrirmynd fyrir aðra áfangastaði sem vinna að sams konar markmiðum.